Vilt þú vaxa með okkur?
Vettvangur er hlýr og heimilislegur vinnustaður en hjá okkur starfar hópur af hæfileikaríkum hönnuðum og forriturum. Við leggjum áherslu á gott starfsumhverfi, sveigjanleika í starfi og viljum efla okkar fólk til að skara fram úr á sínu sviði. Það gerum við með því að styrkja okkar fólk til að sækja ráðstefnur og viðburði, hérlendis og erlendis.
Við viljum vaxa - sem fagfólk, sem einstaklingar, sem fyrirtæki.
Ert þú týpan sem þrífst ekki í starfi nema þú fáir að kljást við krefjandi og fjölbreytt verkefni? Viltu umfram allt vera í umhverfi þar sem á þig er hlustað, þar sem þér er treyst, þar sem skoðanir þínar eru verðmætari en öll heimsins hlutabréf? Í okkar litlu tjörn eru aðeins stórfiskar. Engir hákarlar samt.
Viðmótshönnun
Bestu vefirnir setja upplifun notandans alltaf í fyrsta sæti. Þegar framúrskarandi viðmót og glæsileg hönnun fara saman gerast galdrar. Ertu með?
Viðmótsforritun
Góðir viðmótsforritarar eru jafn eftirsóttir og trommarar sem kunna að halda KJ. Kannski jafnsjaldgæfir líka. Okkar forritarar sitja þó ekki á sínu - sendu okkur línu.
Bakendaforritun
Gæðabakendi er seint vanmetinn. Ert þú snillingur á bak við tjöldin, þar sem réttar tengingar skipta öllu máli og ekkert má klikka?
Góð stemning - og menning:
Við verjum stórum hluta ævinnar í vinnunni, fyrir okkur sjálf eða aðra. Það er því fátt mikilvægara en að líða vel í vinnunni, fá útrás fyrir metnað okkar og hæfileika, og njóta uppbyggilegra samskipta við annað fólk.
Traust og opin samskipti
Þekkingarstarfsmenn geta ekki klárað sín verkefni með sóma nema þeir geti unnið sjálfstætt og hafi traust yfirmanna. Við treystum okkar fólki til að leysa sín verkefni sjálft en vinnum þó þétt saman, aðstoðum hvert annað og veitum stuðning þegar á þarf að halda. Samskipti eru hreinskiptin og opin, samvinnan þétt, jákvæð og uppbyggileg.
Sveigjanleiki
Nútímafólk lifir í flóknum veruleika. Við erum öll þar. Til að þú náir að gera allt sem þú þarft að gera - fyrir þig og fyrir okkur - bjóðum við sveigjanlegan vinnutíma og val um að vinna heima að hluta, eftir verkefnum og samkomulagi.
Við fögnum sigrum
Vinna af krafti, skemmta sér af enn meiri krafti? Stemmir, það erum við. Við erum dugleg við að finna tilefni til að hittast og fagna saman - enda mörg tilefnin. Við höldum árshátíð erlendis, fírum upp sumarpartýi með samstarfsaðilum og vinum, förum í keilu og pílukast, svo fátt eitt sé nefnt. Verður þú ferskasti gleðipinninn?
Samfélagsábyrgð
Vettvangur er hluti af stærra samfélagi. Við viljum láta gott af okkur leiða og sýnum það í verki á ýmsan hátt, en veljum verkefni vel.
Sérstaklega má geta samstarfs okkar við SOS Barnaþorpin, en við erum á því að öll börn, sama hvar þau búi, eigi skilið heimili og ást. Við höfum skuldbundið okkur til að styrkja starf samtakanna um minnst 1 mkr.- á ári.
Vettvangur veitir einnig styrki í ýmis góð málefni í nafni starfsmanna okkar einu sinni á ári.
Fyrirtæki ársins
Stundum er ágætt að fá hreinlega einkunn fyrir verkið. VR valdi Vettvang Fyrirtæki ársins 2020 og hefur veitt fyrirtækinu viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2021 og 2019.
Valið byggir á einkunn sem sett er saman úr níu þáttum; stjórnun, starfsanda, launakjörum, vinnuaðstöðu, sveigjanleika, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, ánægju og stolti, og jafnrétti.
Vettvangur fyrir þá bestu
Til eru þeir sem eru einfaldlega fegnir að geta verið í þægilegri innivinnu á dagvinnutíma. Við erum það líka, en við viljum meira. Miklu meira.
Fagfólk í fremstu röð
Við erum ekki bara hrikalega skemmtileg (í fúlustu), við erum líka býsna klár. Undanfarin ár hefur okkur tekist að fá til liðs við okkur framúrskarandi sérfræðinga á öllum sviðum veflausna; allt frá vefhönnun, rekstri skýjalausna og flókinni bakendavinnu til textagerðar og efnismarkaðssetningar. Hjá okkur er valinn maður - eða kona, ef þú vilt - í hverju rúmi.
Krefjandi og fjölbreyttar tækniflækjur
Ein ástæða þess að metnaðarfullt fólk vill vinna hjá okkur er að viðskiptavinir okkar eru kröfuharðir og fela okkur tæknilega flókin úrlausnarefni. Til okkar sækja mörg af öflugustu fyrirtækjum og stofnunum landsins sem eiga allt undir því að vera leiðandi í stafrænni tækni.
Góð laun fyrir gott fólk
Við vitum að til að fá besta fólkið er ekki nóg að bjóða gott kaffi og stuð - sem við eigum nóg af. Gott fólk þarf laun við hæfi. Við bjóðum kjör á pari við það sem best þekkist á markaðnum - ef þú hefur það sem til þarf.
Þróun í starfi
Við störfum í geira sem er á fleygiferð og þess vegna leggjum mikla áherslu á símenntun og þróun í starfi. Hjá okkur færðu tækifæri til að læra áfram og þróast sem sérfræðingur á þínu sviði.
Og meira til...
Við leggjum okkur fram um að hlúa að okkar úrvalsfólki. Við viljum skapa aðstæður þar sem þú hefur tækifæri til vaxtar og sjálfræktar, og að þú hafir öll tæki og tól til að skila þínu sem allra best.
Við styrkjum þig til sjálfsræktar
Það er mikilvægt að halda hugmyndum og heilsu við. Við veitum starfsmönnum okkar ráðstefnustyrk um allt að 150.000 kr. á ári, sem hægt er að nýta erlendis sem hérlendis. Einnig styrkjum við okkar fólk um 60.000 kr. á ári til að sækja líkamsrækt að eigin vali.
Niðurgreiddur hádegismatur
Í nágrenni okkar er fjöldi veitingastaða sem Vettvangur hefur samið við um afsláttarkjör. Auk umsamins afsláttar á vegum Vettvangs greiðir fyrirtækið 50% af verðinu sem eftir stendur. Það er alltaf veisla í hádeginu hjá okkur! Það er svo auðvitað alltaf úrvalskaffi á könnunni, fullur ísskápur af gosi og hollur skyndibiti á borðum.
Fyrsta flokks aðstaða
Skrifstofur okkar á 5. hæð á Suðurlandsbraut 6 eru fyrsta flokks. Sumir hafa sótt um starf hjá okkur bara fyrir útsýnið yfir sundin bláu og Esjuna. Bílastæði eru ókeypis og næg - ef þú mætir ekki seint - og við erum meira að segja með rafskútu til taks ef þú vilt skutlast í næstu götur. Að sjálfsögðu færðu svo allan þann búnað sem þú þarft að sýna snilli þína, auk greiðslu á kostnaði fyrir síma og internet heima.
Komdu á Vettvang!
Ertu að hugsa þér til hreyfings eða langar bara SVO mikið að vinna með okkur? Skjóttu á okkur línu á vettvangur@vettvangur.is, hringdu í s. 415-0018 eða sendu okkur skilaboð í gegnum LinkedIn - segðu okkur hvað þig langar að gera á Vettvangi! Við gætum fyllsta trúnaðar.
Ef þú ert formlega týpan er leið fyrir þig hér til hliðar :)