Stafræn umbreyting: Tækifæri og áskoranir 2024

Í þessum pósti skoðum við nokkrar helstu sveiflur og strauma í stafrænni umbreytingu fyrir 2024 sem snerta einkum vef- og stafrænar þjónustulausnir. Rauður þráður í stafrænni þróun næstu misseri er áhersla á sveigjanleika og hraða aðlögun að sviftingum í tækni og kröfum neytenda.

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Stafræn umbreyting er ekki ný undir sólinni - hún tekur stöðugum breytingum og hefur mikil áhrif á hvernig við stundum rekstur og eigum samskipti við viðskiptavini. Þegar nýtt ár er að hefjast er ekki úr vegi að skoða hvaða áskoranir og tækifæri eru framundan fyrir framsýna aðila á stafrænni vegferð.

Í þessum pósti skoðum við nokkrar helstu sveiflur og strauma í stafrænni umbreytingu sem snerta einkum vef- og þjónustulausnir sem snúa að viðskiptavinum - og hvernig þú getur nýtt þá til að skapa þér samkeppnisforskot.

#1: Tæknivæn fyrirtækjamenning

Ein helsta kraftvél stafrænnar umbreytingar er fyrirtækjamenningin. Menning sem styður vel við stafræna umbreytingu fagnar breytingum, tilraunastarfsemi og nýsköpun.

Fyrirtæki sem búa yfir slíkum auði eiga auðveldara en önnur með að stafvæða ný ferli, vörur og þjónustu hratt og örugglega til að mæta kröfum á markaði.

Stafræn menning kallar á sterka forystu, skýra stefnu og skilvirkt samstarf þvert á deildir. Hún krefst líka fjárfestingar í réttri hæfni og þekkingu, sem og tólum og innviðum til að stafrænu sprotarnir fái að vaxa og blómstra. 

Hlúa þarf að tilraunastarfsemi og stöðugum lærdómi.

Fyrirtæki sem huga markvisst að stafvænni fyrirtækjamenningu eru skrefi á undan samkeppninni, búa við minni kostnað, bjóða meiri gæði, og uppskera meiri ánægju og tryggð viðskiptavina. 

Sífellt fleiri fyrirtæki munu marka stefnu í þessa átt á nýju ári með auknum þunga í stafvæðingu atvinnulífsins.

Menning sem styður við tæknibreytingar er lykilatriði

Fyrirtæki sem leggja áherslu á menningu sem einkennist af lærdómi og sveigjanleika eiga auðveldar með að innleiða stafræn umbreytingarverkefni.

#2: Skýjarekstur tekur flugið

Skýjarekstur verður sífellt umsvifameiri, enda hefur hann í för með sér marga ótvíræða kosti fyrir stafræna umbreytingu og þróun, ekki síst þróun stafrænna lausna.

Þróun lausna í skýjaumhverfi gerir forriturum kleift að nálgast tól, tækni og gagnasöfn hvar sem þeir eru staddir í heiminum, sem gerir hvers kyns samstarf þvert yfir hnöttinn einfaldara. 

Skýjaumhverfi er sérlega hentugt stafrænum sprotafyrirtækjum af nokkrum ástæðum:

  • Í fyrsta lagi býður skýið upp á vinnslugetu og þjónustustig sem hægt er að skala hratt upp og niður, eftir því sem reksturinn stækkar eða breytist.
  • Í öðru lagi eru skýjalausnir hagkvæmar þar sem aðeins er greitt fyrir afnot hverju sinni - ekki þarf að fjárfesta í dýrum vélbúnaði sem skiptir máli á fyrstu stigum. 
  • Í þriðja lagi bjóða bestu skýjalausnir eins og Azure mikið öryggi, enda stöðugt verið að uppfæra og tryggja umhverfi með bestu mögulegu aðferðum.

Áfram mætti telja.

Framtíðin í stafrænni þróun, bæði fyrir frumkvöðla og ráðsett fyrirtæki í stafrænu umbreytingarferli, liggur í gegnum skýið. Árið 2024 verður enn ein varðan á þeirri leið.

Hröð þróun kallar á skýjarekstur

Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir taka stefnuna á skýjalausnir með gögn sín og stafræna innviði. Skýjalausnir eins og Azure bjóða allt milli himins og jarðar sem snýr að stafrænni vöruþróun og kerfisrekstri.

#3: Stafræn vistkerfi: - API-væðingin

Stafræn vistkerfi eða samsettir tæknistakkar byggja á einingum eða smáþjónustum (e. microservices).

Þannig eru ólíkar lausnir tengdar saman með API samskiptalagi, en mynda saman heildstæða þjónustuupplifun gagnvart viðskiptavinum.

Kostir slíkrar nálgunar eru margir, til dæmis að þannig eru nýttar lausnir sem þegar eru í notkun og starfsmenn kunna á. 

Einnig er þannig hægt að setja saman tæknistakk sem hentar nákvæmlega aðstæðum hverju sinni í rekstrinum. Það eykur mikið sveigjanleika og viðbragðshraða þegar aðstæður breytast - sem gerist sífellt hraðar og oftar í stafrænu samkeppnisumhverfi.

Tæknistakkar sem settir eru saman úr ólíkum, sérhæfðum lausnum verða tvímælalaust meira áberandi árið 2024 - og um fyrirsjáanlega framtíð.

API væðingin

Til að takast á við síbreytilegar aðstæður í hröðu samkeppnisumhverfi er mikilvægt að veðja á sveigjanlegan, samsettan tæknistakk þar sem API tengingar eru nýttar til að tengja saman lausnir, sem hægt er að skipta út eftir þörfum. Mynd frá Storyblok.com.

#4: Stöðug samþætting og útgáfa (CI/CD)

Stöðug samþætting og útgáfa (e. continuous integration / continuous Deployment, CI/CD) er hratt vaxandi nálgun í stafrænni þróun og á rætur að rekja til DevOps aðferðafræðinnar.

CI felur í sér sjálfvirka prófun á uppfærslum í kóðagrunni, sem gerð er jafn óðum. Breytingar eru keyrðar upp í framleiðsluumhverfi (e. staging/production system) eftir að sjálfvirkar prófanir hafa farið fram. 

CI sjálfvirknivæðir uppfærslur og viðbætur, en CD tekur skrefið lengra og færir þær í framleiðsluumhverfið fyrir nákvæmar prófanir.

Vettvangur notar CI/CD markvisst sem lið í DevOps verkferlum.

Vegna sífellt harðnandi samkeppni í stafrænu þjónustuframboði skiptir miklu máli að auka sveigjanleika, stytta þróunarferlið og bæta gæði lausnanna. CI/CD nálgun verður því áfram í sókn 2024 og um ókomin ár.

#5: API öryggismál sett á oddinn

Með breyttri kerfishögun þar sem sífellt fleiri veðja á flókna, samsetta tæknistakka ólíkra lausna sem vinna saman yfir API tengingar verður öryggi tenginganna æ krítískara. Öruggar API tengingar eru mikilvægar til að tryggja öryggi gagna og flæði þeirra.

Traustar API tengingar lágmarka hættu á gagnalekum, netárásum og alls kyns sviksemi sem tekur stöðugt á sig nýjar myndir.

Nauðsynlegt er að fara eftir bestu viðmiðum hverju sinni til að bæta öryggi API tenginga. Þau snúa að þáttum eins og dulkóðun, auðkenningu, stillingum á heimildum notenda, eftirliti, atvikaskráningu og reglulegum úttektum. 

Öryggi í API tengingum fæst best með því að nóta tól og tækniumhverfi sem bjóða traustar API gáttir, eldveggi og auðkennislausnir.

Á Vettvangi treystum við á þróunarumhverfi Azure sem býður hámarksöryggi m.t.v. gagnaöryggis. Þar hafa sérfræðingar Well Advised reynst okkur haukar í horni.

API öryggið sett á oddinn

Eftir þvi sem skýjareksturinn eykst sem og umfang samsettra tæknistakka sem vinna saman í gegnum API, fær öryggi tenginganna sífellt meira vægi.

#6: Gagnagapið brúað

Gagnagapið (e. data divide) er áskorun sem mörg fyrirtæki og stofnanir standa frammi fyrir á stafrænni vegferð. Nánar tiltekið snýr áskorunin að því að safna, greina og hagnýta gögn til að fá betri innsýn í reksturinn, taka betri ákvarðanir og sjálfvirknivæða ferla. 

Þróuðustu tæknilausnir í dag nýta gögn sem sitt kjarnafóður - ekki síst sjálfvirkar lausnir sem byggja á gervigreind. Þetta á einnig við um ýmsar stafrænar þjónustulausnir þar sem persónusniðin upplifun er mantran.

Lykill að því að bæta gagnagæðin - og gera þannig verðmæti úr þeim - er að nýta gagnalausnir og tól sem tengja saman og flokka gagnasöfn og -strauma. En verkefnið snýr líka að ferlum, þekkingu og menningu, samanber punkt að ofan.

Þetta er vegferð sem flest fyrirtæki eiga fyrir höndum áður en þau geta tekið einhver skref í snjallvæðingunni framundan - sem tekur við af stafvæðingunni.

Mörg fyrirtæki munu á nýju ári hella sér í stefnumótun og vinnu við að greina og skipuleggja gögn sín, enda mikil verðmæti í húfi.

#7: Sjálfvirkni á sterum

Sjálfvirkni í stafrænum lausnum verður sífellt mikilvægari í stafrænni umbreytingu.

Sjálfvirknin snýr að því að leysa mannshöndina af hólmi hvar sem hægt er, auka skilvirkni ferla með hraðari vinnslu hvers konar og bæta þjónustu við endanotendur. 

Sjálfvirkni hefur þegar rutt sér rúms í vefþróuninni, ekki síst í prófunum og útgáfuferlinu (sjá umræðu um CI/CD að ofan), en einnig í öryggiseftirliti og sjálfvirkum stillingum á afkastagetu.

Einnig sjáum við sjálfvirkni í lausnunum sjálfum, til dæmis í formi persónusniðinnar vefupplifunar, meðmælakerfum og snjallra spjallmenna sem létta álag á þjónustuverum - eða gera þau óþörf.

Sjálfvirknin er allt umlykjandi í stafrænni þróun og fær sterabúst á nýju ári með aðstoð spunagreindar og annarra AI tóla.

Gervigreindin er komin til að vera

Stafvæðingin mikla opnar veginn fyrir snjallvæðingu sem nýtir gervigreind til að sjálfvirknivæða alls kyns verkferla sem áður þurfti mannshöndina við. Þessi þróun er komin á fulla ferð og tekur stökkið 2024.

Lokaorð

Í þessari grein höfum við fjallað um helstu strauma í stafrænni umbreytingu fyrir árið 2024 - og væntanlega áfram næstu misseri.  Þeir eru vissulega fleiri.

Stafræn umbreyting og þróun er síbreytilegt en óstöðvandi ferli sem krefst stöðugrar aðlögunar og nýsköpunar. Það er ekki um neina endastöð að ræða. 

Veflausnir og aðrar lausnir sem snúa að stafrænni þjónustu leiða vagninn þegar stafræn vegferð er annars vegar.

Það er mikilvægt að huga sérstaklega að óvissri framtíðarþróun þar, bæði hvað varðar tækni og kröfur notenda, en þar er sveigjanleiki og viðbragðshraði lykilatriði. 

Vonandi kviknuðu einhver ljós við lesturinn - við á Vettvangi erum ávallt boðin og búin í spjall til að ræða um stafræna þróun - þína eða almennt!

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur