Allt að 80% fækkun formgalla með nýjum vef Hugverkastofunnar [reynslusaga]

Hugverkastofan er nútímaleg stofnun sem hefur sett sér skýra og metnaðarfulla stefnu fyrir sína stafrænu vegferð. Einn af lykilþáttum hennar snýr að því að nýta veflausnir til að auka sjálfsafgreiðslu, bæta þjónustu og minnka handavinnu starfsmanna. 

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Hlutverk Hugverkastofunnar er að sjá um skráningu og fara með málefni einkaleyfa, vörumerkja, hönnunarverndar, byggðarmerkja og annarra slíkra hugverkaréttinda. Stofnunin veitir einnig einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði.

www.hugverk.is

Leitin að lausninni

Hugverkastofan hefur skilgreint metnaðarfulla stefnu um stafvæðingu þjónustulausna og innri ferla. Meðal helstu markmiða er að bjóða alla þjónustu í gegnum veflausnir þannig að viðskiptavinir geti afgreitt sig sjálfir fljótt og vel. 

Pétur Vilhjálmsson leiðir stafrænt teymi Hugverkastofunnar, sem starfar þétt með öllum hagsmunaaðilum, jafnt starfsmönnum sem viðskiptavinum. Það er enda lykilatriði að þarfir og væntingar notenda séu efst á blaði við hönnun nýrra vefja.

Ein áskorun Hugverkastofunnar er að bjóða heildræna þjónustuupplifun sem svarar þörfum mjög ólíkra viðskiptavina. Margir leita aðeins til Hugverkastofunnar einu sinni á ævinni, en stofnunin sinnir einnig fagaðilum sem eiga mörg erindi á degi hverjum.

Pétur og teymi hans fóru á stúfana vorið 2021 í leit að vefstofu sem gæti blásið lífi í stafræna þróun stofnunarinnar, með nýjum vef og þjónustulausnum. Litið var sérstaklega til fyrri verkefna, tæknilegrar getu og mikillar reynslu af notendamiðaðri hönnun.  

Vettvangur var fenginn til að halda hönnunarsprett þar sem allar hugmyndir voru dregnar fram, en mjög vönduð og ítarleg þarfagreining sem stafrænt teymi Hugverkastofunnar hafði unnið áður innanhúss nýttist einnig mjög vel. 

Í þarfagreiningunni voru allir starfsmenn virkjaðir til að draga fram þarfir, hugmyndir og óskir, auk þess sem fundað var með fulltrúum nokkurra stærstu viðskiptavina stofnunarinnar.

Sprettinum lauk með gerð prótótýpu af fullgerðum vef, sem endurspeglaði kröfur Hugverkastofunnar og forgangsröðun þróunar fyrir fyrsta fasa.

Mikil ánægja var með útkomu sprettsins og í kjölfar verðkönnunar var ákveðið að halda áfram í lokahönnun og þróun með Vettvangi sem bauð gott verð og hraða afhendingu.

Lausnin

Lokahönnun nýs vefs Hugverkastofunnar var tilbúin haustið 2021 og fyrsti fasi var gefinn út sumarið 2022. Nýi vefurinn tekur mið af síauknum kröfum notenda um sjálfsafgreiðslu sem er í takt við stefnu stofnunarinnar.

Mjög mikilvægt atriði í því samhengi er framúrskarandi notendaviðmót og skýrt flæði þjónustuferla

Þjónusta sem veitt er í gegnum vef Hugverkastofunnar snýr að skráningu á vörumerkjum og hönnun auk umsókna um einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum.

Í slíkum ferlum þarf að taka tillit til fjölmargra flokkunarskilyrða til að leiða notendur áfram á réttan stað og tryggja að allar nauðsynlegar upplýsingar séu skráðar. Þá geta eigendur lagt inn erindi á vefnum tengd viðhaldi réttinda, svo sem endurnýjun og framsali. 

Meðal annarra nýjunga á vef Hugverkastofunnar eru mjög öflugar leitarvélar, sem auðvelda notendum að finna fljótt þau hugverkaréttindi sem eru skráð á Íslandi.

Skráning vörumerkja hjá Hugverkastofunni

Skráningarferli fyrir vörumerki er skýrt og leiðir notandann örugglega áfram. Þar er meðal annars hægt að vista skráninguna og ljúka síðar, horfa á skýringarmyndband og skoða áætlaðan kostnað við skráninguna.

Flóknara en fyrsta greining

Greining og stafvæðing afgreiðsluferla sem áður fóru fram í gegnum ítarleg umsóknareyðublöð og handskráningar upplýsinga inn í innri kerfi getur verið snúið verkefni. Sumar flækjur komu ekki í ljós fyrr en byrjað var útfæra ferlin endanlega í vefviðmóti, enda fjölmörg flokkunarskilyrði sem taka þurfti tillit til.

Það varð raunin í þessu tilfelli. Þrátt fyrir vandaðan undirbúning af hendi Hugverkastofunnar og öflugan hönnunarsprett þar sem öllum steinum var velt við kom í ljós að skráningarferlin voru nokkuð flóknari en gert var ráð fyrir í fyrstu, sem hafði í för með sér viðbótarhönnun.

Við höfðum brennt okkur á því áður að hanna meira út frá okkar þörfum en þörfum viðskiptavinanna. Það getur verið mjög kostnaðarsamt að setja í loftið tilbúna lausn sem reynist svo ekki vera það sem fólk er að leita eftir. Í þessu verkefni höfum við því bæði reynt að hanna með viðskiptavinum en líka leyft okkur að setja lausnir í loftið sem eru kannski ekki alveg tilbúnar og þróað þær svo áfram. Það kostar auðvitað líka en niðurstaðan fyrir viðskiptavinina verður klárlega betri.

Pétur Vilhjálmsson

Stafrænn leiðtogi hjá Hugverkastofunni

Sjálfsafgreiðsla þrefaldast - bætt þjónustuupplifun og hagræðing

Stafrænt teymi Hugverkastofunnar skilgreindi nokkra mælikvarða til að meta árangur af verkefninu. Sérstaklega var litið til hlutfalls sjálfsafgreiðslu í gegnum vefinn en einnig var fylgst með fjölda formgalla við umsóknir, þar sem aðstoð starfsfólks Hugverkastofunnar þarf til að klára afgreiðslu.

Markmið Hugverkastofunnar er að viðskiptavinir geti sinnt erindum sínum við stofnunina alfarið í gegnum vefinn. Samkvæmt fyrstu mælingum, nú fimm mánuðum eftir útgáfu, er óhætt að fullyrða að verkefnið hafi skilað tilætluðum árangri, þótt því sé hvergi lokið.

Þjónusta við notendur hefur tekið stakkaskiptum og notkun á stafrænum lausnum aukist mikið. Meðal annars má nefna að árið 2021 komu um 90% allra umsókna um vörumerki inn með rafrænum hætti í gegnum vef Hugverkastofunnar. Eftir að nýi vefurinn fór í loftið er þetta hlutfall komið upp í 99%

Mælanlegur árangur Hugverkastofunnar fimm mánuðum eftir útgáfu

Formgöllum í skráningum hefur fækkað um 80% og 99% umsókna koma nú með sjálfsafgreiðslu í gegnum vefinn.

Hlutfall þeirra sem ná að ljúka sínum erindum alfarið í gegnum vefinn hefur líka hækkað mikið. Langflest þeirra sem fara inn í umsóknarformin klára erindin þar. Áður var það þannig að þegar fólk sótti um vörumerki var ekki nema þriðjungur umsókna kláraður. 

Nú er þetta hlutfall komið yfir 80%

Í takti við þessa þróun hefur heimsóknum til Hugverkastofunnar sömuleiðis fækkað stórlega sem og símtölum.  Áhugavert er að heimsóknum á vefinn hefur einnig fækkað, líklega vegna þess að það er nú auðveldara en áður að ljúka erindum sínum þar.

Öflug leitarvél

Öflug leitarvél auðveldar notendum mjög að finna og merkja við alla viðeigandi vöruflokka við skráningu vörumerkis, sem áður þurfti oft aðstoð starfsmanna við.

Mistök og formgallar í skráningu og útfyllingu vörumerkjaumsókna voru algengir áður, en þeim hefur að sama skapi fækkað um 80%. Þá þurfti starfsfólk Hugverkastofunnar að hafa samband við viðkomandi og fá nánari skýringar og upplýsingar.

Slík tilfelli eru miklu færri í dag og það er markmið Hugverkastofunnar að þeim fækki enn frekar.

Næstu verkefni - stafrænni vegferð lýkur aldrei

Sem fyrr segir er stafrænni vegferð Hugverkastofunnar hvergi nærri lokið. Markmið Péturs og teymis hans er meðal annars þróa vefinn áfram þannig að hann nýtist betur sem innanhússtól fyrir starfsmenn. 

Enn er svigrúm fyrir frekari straumlínulögun og stafvæðingu ferla, enn betra flæði í sjálfsafgreiðslu og sjálfvirkni með aðstoð reiknirita. 

Fyrir stofnun eins og Hugverkastofuna á stafrænni fleygiferð eru næg verkefni framundan.

www.hugverk.is

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur