Sprettigluggar (e. pop-up windows) geta stundum hentað til að grípa notendur á netfangalista eða til að vekja athygli á tilboðum. Oftar eru þeir þó truflandi fyrir notendur, enda yfirleitt ágengir og tímasetning óheppileg. Best er að sleppa þeim, nema sterk rök séu fyrir því.
Gluggar sem spretta fram um leið og komið er inn á síðu, yfirskyggja meginefni síðunnar eða er erfitt að loka, virka mjög neikvætt á notendur.
Hver vill láta veifa framan í sig bæklingum og tilboðsmiðum þegar gengið er inn í verslun?
Gerðu þetta:
- Kannaðu aðrar leiðir sem eru ekki eins ágengar en gera sama gagn, til dæmis hreyfirenninga eða borða - mikilvægt er þó að gera A/B prófanir til að bera saman árangur.
- Stilltu sprettiglugga þannig að þeir birtist eftir ákveðinn tíma, til dæmis þegar notandi er kominn neðst á síðu eða sýnir að hann ætlar að yfirgefa vefinn.
- Tryggðu í öllu falli að auðvelt sé að loka öllum sprettigluggum og þeir þvælist ekki fyrir ásetningi notandans.