Vandaður vefur þarf að vera meira en glæsilegur til að geta staðið undir nafni. Hann þarf að vera hraður - hver sekúnda í hleðslu skiptir máli -, og hann þarf að vera skýr og aðgengilegur þannig að auðvelt sé að finna það sem leitað er að.
Okkur liggur öllum á - sérstaklega þegar við leitum svara á netinu.
Stundum er hins vegar eins og einn mikilvægasti þáttur vefsmíðinnar sé afgreiddur eins og neðanmálsgrein eða aukaatriði, þegar nýjum vef ef hleypt af stokkunum.
Það er textinn.
Hvað er þó hallærislegra en nýr, glæsilegur vefur, knúinn nýjustu tækni þar sem textinn er hvorki frumlegur, skýr eða sannfærandi - og ekki einu sinni á réttu máli?
Hér verður fjallað um 4 ástæður þess að vefefnið er jafn mikilvægt og vefhönnunin og vefviðmótið - ef ekki mikilvægara.
Helstu punktar til að taka með:
- Veftextinn er ekki síður mikilvægur en útlit eða flæði vefs - oft mikilvægari.
- Gott vefefni styður við staðfærslu vörumerkis og virðisloforð, og hefur því meira vægi eftir því sem traust og áreiðanleiki í viðskiptum er mikilvægari
- Leitarvélar byggja niðurstöður á textaefni og gæðum þess, ekki veftrjám eða fallegu myndefni
- Áhrifaríkt myndefni laðar að og vekur hugrenningartengsl, en það er textinn sem sannfærir og selur
- Góður texti er fjárfesting til lengri tíma sem ávaxtast, ekki kostnaður
#1 Textinn endurspeglar vörumerkið, rödd þess og ímynd
Hvenær skiptir textinn ekki máli? Jú, það má hugsa sér að texti í smáauglýsingum á Bland.is eða sölutexti fyrir fæðubótarefni sé ekki viðkvæmur fyrir stafsetningarvillum eða bulltexta, en fyrir flest fyrirtæki og stofnanir sem vilja láta taka sig alvarlega skiptir vandaður veftexti miklu máli.
Hvers kyns texti sem er notaður í markaðssamskiptum hefur áhrif á ímynd og traust. Það gildir jafnt um veftexta, tölvupósta sem innlegg á samfélagsmiðlum. Efni sem sett er fram í nafni fyrirtækis þarf að endurspegla staðfærslu þess á markaði og virðisloforð, sem og gæði þeirrar vöru eða þjónustu sem það býður.
Vandaður texti byggir undir traust og trúverðugleika, sérstaklega á markaði þar sem gerð er krafa um vönduð vinnubrögð og áreiðanleika. Kæruleysislegur og hroðvirknislega unninn texti gefur til kynna að aðrir gæðaferlar og vinnubrögð fyrirtækisins séu á svipuðu róli.
#2 Vandað vefefni hámarkar árangur í leitarvélum
Það er til lítils að ætla sér að snúa á Google í dag til að fleyta sér ofar í leitarniðurstöðum. Google raðar niðurstöðum að miklu leyti eftir því hvernig notendur haga sér þegar þeir heimsækja viðkomandi vefsíðu. Og þá skiptir textinn meginmáli.
Meðal mikilvægra atriða sem Google horfir til er brotthvarfshlutfall (e. bounce-rate), og lengd heimsóknar. Til að hafa áhrif á þessar breytur gegnir veftextinn lykilhlutverki.
Texti sem er vel skrifaður og svarar vel spurningum notenda er líklegur til að halda athygli betur og hvetja notandann áfram til að lesa áfram og skoða fleiri síður.
Óskýr og illa fram settur texti stuðar notandann og skerðir upplifun hans. Það skaðar allt í senn; vörumerkið, líkur á viðskiptum og árangur í leitarniðurstöðum til lengri tíma.
Enda þótt texti sem skrifaður er fyrir leitarvélar (t.d. með því að troða sömu leitarorðunum í hverja málsgrein) geri miklu meiri skaða en gagn, er enn mikilvægt að huga að mikilvægustu leitarstrengjum á þínum markaði.
Til að Google skilji betur um hvað vefsíðan fjallar, hvort sem er um vörulýsingar eða blogg að ræða, er mikilvægt að nota viðeigandi leitarorð í fyrirsögnum og millifyrirsögnum. En ef titlar og fyrirsagnir eru misnotaðar til að narra notendur í heimsókn bitnar það fljótt á leitarniðurstöðum.
Textinn þarf að skila því sem titillinn lofar.
#3 Góður veftexti sannfærir og selur
Það verður seint ítrekað nægilega oft að viðskiptavinum er yfirleitt nokk sama um vöru þína eða þjónustu - hann vill fyrst og fremst skilja og leysa eigin vandamál og áskoranir. Hann vill sannfærast um að vara þín eða lausn létti líf sitt.
Góður sölutexti er hæfileg blanda af lýsingum á eiginleikum þess sem þú býður og ávinningnum sem felst í lausn vandans („features tell, benefits sell“). Í grunninn snýst verkefnið um að skilja þarfir og vanda viðskiptavinarins og skrifa efni sem svara spurningum hans og efasemdum.
Ný þjónusta á Vettvangi: Efnisvinnsla og -ráðgjöf - kannaðu málið hér!
#4 Vandað vefefni er fjárfesting
Tími og vinna sem sett er í góðan texta er ekki kostnaður heldur fjárfesting. Þetta á reyndar við um vefsmíðina alla.
Gott vefefni er fjárfesting til lengri tíma sem endurspeglar þau gæði sem þú setur í aðra þætti vefsins, myndefni, hönnun og tækni, sem og þau gæði sem þú vilt að vörur þínar og þjónusta standi fyrir.
En vandað efni er líka eins og peningar á bók sem ávaxtast á meðan þú sefur, öfugt við skammlífar auglýsingar sem þarf að greiða fyrir í hver skipti sem smellt er. Slíkt efni sannfærir Google betur og betur, dag og nótt, um að þú hafir svörin sem leitað er að. Umbunin er betri árangur í leitarvélum sem erfitt er að taka frá þér.
Samantekt
Textaefni eins og vöru- og þjónustulýsingar, sölutexti, blogg og skrif á samfélagsmiðlum, er kjarninn í árangursríkum markaðssamskiptum á stafrænum miðlum. Góður texti getur lyft vörumerki upp í nýjar hæðir, en slæmur dregið það niður. Á endanum er það orðið sem fræðir, sannfærir og selur, fremur en flæðandi hönnunin og stílhreinu myndirnar.
Kynntu þér þjónustu okkar:
Elmar Gunnarsson
Viðskipti og ráðgjöf
Viltu kíkja í spjall?
Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.