Hvað þarf að hafa í huga við val á nýrri vefstofu? Hér eru 8 atriði.

Mörg fyrirtæki og stofnanir eru á kafi í einhvers konar stafrænni umbreytingu þessa dagana. Oft felur slíkt vinna í sér yfirhalningu á vefnum, því hann er órjúfanlegur hluti af stafvæðingunni. 

Þegar vefurinn fær nýtt og veigameira hlutverk getur verið æskilegt að skoða nýja aðila til samstarfs. En hvernig er best að snúa sér í leitinni að nýrri stofu? Hvað ber að hafa í huga í slíku ferli?

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Helstu punktar til að taka með:

  • Góð grunnvinna í formi einhvers konar þarfagreiningar og markmiðasetningar er mikilvæg - besta leiðin er að vinna frumgerð af nýjum vef með stofunni
  • Gerðu óformlega rannsókn; skoðaðu vefi stofanna og sambærileg fyrri verkefni
  • Hafðu beint samband viðskiptavini stofanna og fagfólk sem þú treystir
  • Hugaðu að vefefni í tíma, jafnvel áður en leitað er til stofu - óklárt efni tefur þróunarvinnu yfirleitt
  • Hugsaðu samstarfið til lengri tíma - leggðu áherslu á þætti eins og tæknilega getu, þjónustuviðbrögð og samskipti

Hvað þarf að hafa í huga við val á nýrri vefstofu?

#1: Þarfagreining? Alltaf.

Áður en farið er á stúfana til að kanna mögulega aðila til samstarfs þarf að liggja fyrir hvert hlutverk og markmið vefsins á að vera, í nútíð og næstu framtíð.

Sumir leita til ráðgjafarfyrirtækja sem vinna ítarlega þarfagreiningu og skila af sér í skýrsluformi. Aðrir skipuleggja vinnufundi innanhúss með lykilhagsmunaðilum og fara rækilega yfir þarfir og sjónarmið sem þurfa að koma fram.

Reynsla Vettvangs er að langfarsælast sé að láta vinna prótótýpu eða frumgerð af nýjum vef, í nánu samstarfi við viðskiptavin. Með því móti fæst góður skilningur á þörfum og væntingum viðskiptavinar og sjónarmið koma fram sem annars hefðu gleymst. Slík vinna gefur líka mikilvæga innsýn í vinnubrögð stofunnar og samskipti, sem skiptir öllu fyrir framhaldið.

Það er ekki góð reynsla af því að vinna nýjan vef beint upp úr skýrslu, sem samin er af fólki sem er sérhæft í öðru en vefhönnun eða stafrænni tækni. Að því sögðu er, sem fyrr segir, mikilvægt að þarfirnar liggi fyrir og að því sé gætt að allir mikilvægir hagsmunaaðilir geti komið sínum sjónarmiðum að strax í upphafi.

#2: Farðu á stúfana

Það er vel þess virði að kanna vel markaðinn áður en stuttur listi er valinn til að skoða nánar. Nýr vefur eða flókin stafræn lausn er stórt og mikilvægt verkefni, og vel þess virði að vanda valið.

Ekki er víst að leit að „vefsíðugerð“ eða „vefhönnun“ í Google skili þér bestu niðurstöðunum, ef þú gerir miklar kröfur. 

Sumir líta til vinningshafa Íslensku vefverðlaunanna (sjá SVEF), þar sem verðlaun eru veitt í mörgum flokkum. Það er skynsamlegt. 

  • Hvaða stofur standa þar upp úr? 
  • Hvar liggur þeirra sérhæfing? 

Hafa ber í huga að slík verðlaun taka takmarkað tillit til tæknilausna sem eru lítt sjáanlegar á yfirborðinu. Þau segja ekki heldur mikið um vinnubrögð, áreiðanleika eða samskipti.

Hringdu líka nokkur símtöl - það er auðvelt á litla Íslandi. Hafðu samband við fólk sem þú treystir: Hverjir eru að gera góða hluti í dag? Hvað segir auglýsingastofan þín - eða fyrirtækið sem þú treystir fyrir kerfislausnum þínum?

Síðast en ekki síst: Fáðu fund með stofunum sem þér líst best á - þegar þú hefur kynnt þér rækilega öll atriði í þessu yfirliti!

Farðu á stúfana, hringdu símtöl, gerðu rannsókn á netinu. Gúglaðu.

#3: Skoðaðu vefi stofanna - og viðskiptavini þeirra

Best er að fá mjólkina beint frá kúnni. Vefir stofanna ættu að vera til fyrirmyndar hvað varðar hönnun og tækni. Er þeir það?

Skoðaðu verkefni og vefi sem stofurnar hafa unnið að nýlega og þú ert hrifin(n) af.  Eru þetta fyrirtæki í svipaðri starfsemi og þitt fyrirtæki eða stofnun? Hvaða tæknigeta liggur að baki verkefnunum?

Hafðu samband við vefstjóra eða markaðsstjóra viðkomandi fyrirtækis:

  • Hvernig gekk vinnan? 
  • Hvernig eru samskiptin og þjónustan? 
  • Hver er tæknigetan?

Sendu póst á stofuna, kannaðu hversu fljótt þú færð svör til baka. Það getur gefið vísbendingu um þjónustustig og viðbragðsflýti í samskiptum.

#4: Stuðningur og ráðgjöf við stefnu og mörkun

Dýrmætasti eiginleiki í sölu- og markaðsstarfi er að geta sett sig í spor annarra. Þetta gildir um vefsmíði einnig, þar sem notandinn og þarfir hans verða alltaf að vera í fyrsta sæti. 

Veldu stofu sem gefur sér tíma til að skilja markað þinn og notendur, og þróar klæðskerasaumaða lausn fyrir þína stefnu og markmið, en hendir ekki bara upp nothæfu útliti til að klára dæmið fljótt.

Nýr, flottur vefur er ekki markmið í sjálfur sér - hann er alltaf tæki til að ná markmiðum sem þú hefur skilgreint fyrir reksturinn eða starfsemina. 

Öflug stofa horfir lengra og hærra en skammtímamarkmið þín segja til um, og ráðleggur þér um stefnu í stafrænum miðlum inn í framtíðina sem tekur mið af nýjungum í tækni og því sem best þekkist á þínum markaði.

Bestu stofurnar hjálpa þér að marka stafræna stefnu og ná rekstrarlegum markmiðum.

#5: Veldu rétt vefumsjónarkerfi (e. content management system)

Það er mikilvægt að velja vefumsjónarkerfi sem hentar þörfum þínum. Gríðarlegt úrval er til af slíkum kerfum, en þau hafa sína styrkleika og veikleika.

Kannski nægir þér Wordpress eða Shopify lausn, þar sem byggt er að miklu leyti á sniðum eða módúlum sem hægt er að raða saman? Ef reksturinn er flóknari og útheimtir tengingar við ýmis viðskiptakerfi er líklegra að þú þurfir öflugra kerfi sem hægt er að skala í allar áttir.

Vettvangur hefur mikla sérhæfingu og reynslu af Umbraco sem byggir á tækni Microsoft, en það er sérstaklega notendavænt og auðvelt að aðlaga að þörfum hvers og eins. Notkun kerfisins er líka án endurgjalds, sem er alltaf jákvætt.

Mikilvægast er þó að hugbúnaðurinn er frjáls  (e. open-source), sem þýðir að auðvelt er fyrir annan þjónustuaðila að taka við keflinu ef óskað er, sem veitir mikið aðhald fyrir þjónustuaðilann til að gera gott verk - það er auðvelt að skipta.

Enginn einn valkostur er réttur í þessu, en þetta eru atriði til að hafa í huga við val á stofu og ræða á fundi með þeim.

Lestu bloggið: CMS skorkort: Svona velurðu rétta vefumjónarkerfið.

#6: Hugsaðu fyrir vefefninu

Vefhönnun og -þróun er í grunninn f.o.f. skipulag og hönnun á flæði utan um vefefnið sem fræðir og veitir notendum upplýsingar sem hann þarf til að nýta sér þjónustu þína.

Ef efnið er lítið hugsað og vanþróað er illa farið með dýra vinnu við vefþróun. Þegar nýr vefur er gefinn út er góð og gild regla að endurskrifa allt efni sem mögulegt er - bjóddu notendum nýja, ferska upplifun, ekki nýjar umbúðir um gamalt og þreytt efni.

Það er því mikilvægt að huga strax að efninu, hvernig það verði endurunnið eða frumsamið fyrir hinn nýja vef. Mjög oft verðar tafir á vefhönnun og -þróun af því að þessi liður er vanáætlaður að umfangi og tíma.

Skilur stofan hvers kyns efni styrkir þína stöðu best á stafrænum miðlum? Veit hún hvernig er best að setja efnið fram og dreifa til að ná árangri í leitarniðurstöðum?

Góð vefstofa getur gefið þér ráð varðandi val og framsetningu á öllu vefefni, og jafnframt unnið það í samstarfi með þér.

Veldu stofu sem hefur skilning á efnismarkaðssetningu og hvernig hún hefur áhrif á kaupferli viðskiptavina á þínum markaði. 

Bestu vefstofurnar hjálpa þér að fylla vefinn af vönduðu vefefni, til dæmis sannfærandi sölutexta, blogggreinum og reynslusögum sem styðja við þitt stafræna markaðsstarf og styrkja þig sem leiðtoga á markaði.

Vefurinn er flæði og skipulag utan um efni - ekki vanrækja þann þátt í undirbúningi.

#7: Ekki pukrast með fjárhagsáætlunina

Það er í sjálfu sér eðlilegt að sumir vilji halda spilunum að sér þegar rætt er um fjárhagsáætlun - hversu miklu má verja í verkefnið. Það er hins vegar best fyrir báða aðila að spilin séu uppi á borðinu hvað varðar fjárhagsrammann fyrir verkefnið. 

Þegar stofan hefur upplýsingar um hið fjárhagslega svigrúm sem hægt er að vinna með er hún betur í stakk búin að leggja til bestu mögulegu lausnina.

Hún getur þá lagt niður tillögur að þróunaráætlun, sem ef til vill er hægt að skipta niður í skynsamlega þróunarfasa yfir lengri tíma, eftir aðstæðum og fjárhag.

Ef fjárhagsáætlun liggur fyrir strax í upphafi ferlisins eru meiri líkur á að stofurnar sem þú hittir geti bent þér á hentugustu lausnina fyrir þig - sem kann jafnvel að vera hjá öðrum aðila.

Best fyrir alla er að fjárhagsramminn sé uppi borðum.

#8: Hugsaðu samstarfið til lengri tíma

Vefurinn er kjarninn í hinni stafrænni byltingu sem gengur yfir heiminn nú um stundir. Það er á vefnum þar sem stund sannleikans verður í samskiptum viðskiptavina og þjónustuveitenda.

Vefurinn er stafræn framlenging eða birtingarmynd rekstursins eins og hann þróast stöðugt í takt við nýja tækni, þróun á markaði og breyttar kröfur viðskiptaaðila. Rekstur vefs er því eilífðarverkefni; honum þarf að halda við og þróa áfram meðfram rekstrinum. 

Það er því nauðsynlegt að hugsa samstarf við vefstofu til lengri tíma og gera strax ráð fyrir áframhaldandi, nánu samstarfi eftir að fyrsta útgáfa vefsins lítur dagsins ljós.

  • Hversu áreiðanlegur og traustur er rekstur stofunnar?
  • Hvernig eru samskiptin við starfsfólk stofunnar? 
  • Hvernig er stemningin hjá starfsfólkinu? 
  • Er þetta fólk þú kærir þig um að leysa flækjur með og sækja ráðgjöf til á næstu árum?

Það er mikilvægt að ræða hvernig vinnufyrirkomulag og vinnuflæði verður eftir að vefurinn hefur verið gefinn út: 

  • Hvað má reikna með skjótum viðbrögðum við fyrirspurnum og smáverkefnum? 
  • Hverjir munu halda utan um vefinn þinn sérstaklega? 
  • Hvað má reikna með að reglubundinn kostnaður verði mikill?

Þetta eru dæmi um spurningar sem er gott að fara yfir strax áður en stofa er valin til samstarfs.

Samantekt

Það er að ýmsu að hyggja þegar lagt er af stað í leit að nýrri vefstofu. Grundvallaratriði er að markmið séu skýr og þarfir allra hagsmunaaðila uppi á borðum. Það borgar sig að leggja nokkra vinnu í leitina, skoða vefi vefstofanna, hafa beint samband við viðskiptavini þeirra og heyra frá fleirum aðilum sem hafa tengsl inn í þennan geira. Atriði til að hafa í huga eru sambærileg verkefni, meðmæli og tæknileg geta. Vísbendingar um vinnubrögð, samskipti og menningu skipta miklu máli varðandi langtíma samstarf.

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur