Stafræni leiðtoginn: Helga María Guðmundsdóttir

Helga María Guðmundsdóttir er ritstjóri þekkingarvefs Heilsuveru. Hún er með meistaragráðu í fjölmiðlafræði og diplómapróf í lýðheilsufræðum, og er þar að auki hjúkrunarfræðingur. Hún segir hér frá stafrænni vegferð Heilsuveru undanfarin misseri, sem hefur verið ævintýraleg á köflum.

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efniþjónusta

julli@vettvangur.is

Nafn:       Helga María Guðmundsdóttir

Staða:      Ritstjóri þekkingarvefs Heilsuveru

Menntun: BS hjúkrunarfræði, MA í fjölmiðlafræðum og diplómapróf í lýðheilsufræðum

Aldur:       38 ára

Notendum Heilsuveru.is hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum, en sannkölluð sprenging varð í Covid faraldrinum, þegar almenningur sótti sér mikilvægar upplýsingar, bólusetningarskírteini og þjónustu heilsugæslustöðva í gegnum vefspjall: Fjöldi notenda tvöfaldaðist og heimsóknir á vefinn fimmfölduðust milli 2020 og 2021.  

Er óhætt að segja að Heilsuvera hafi komist rækilega á kortið hjá landsmönnum. 

Heilsuvera.is er enn gríðarmikið notaður og voru til að mynda heimsóknir 2023 um 2,8 milljónir, flettingar um 4 milljónir. 54000 bólusetningaráætlanir voru gerðar í gegnum vefspjall 2023 með rafrænni auðkenningu.

Helga María Guðmundsdóttir er ritstjóri þekkingarvefs Heilsuveru. Hún er með meistaragráðu í fjölmiðlafræði og diplómapróf í lýðheilsufræðum, og þar að auki hjúkrunarfræðingur. Í fyrri störfum sínum  framleiddi hún meðal annars þáttaraðir um heilsueflandi málefni sem voru sýndar á Hringbraut.

Hvert er hlutverk þitt hvað varðar stafræna þjónustu Heilsuveru?

„Ég ber ábyrgð á umsjón og ritstjórn þekkingarvefs Heilsuveru. Ég sé um að finna hugmyndir að nýju efni, fá sérfræðinga til að skrifa pistla, yfirfara efni frá þeim og birta á Heilsuveru. Við fylgjumst líka grannt með faglegu efni frá erlendum aðilum.“

Vegferðin - stöðugar endurbætur

Hvert var upphafið að ykkar stafrænu vegferð?

„Heilsugæslan hefur haldið úti fræðslu um heilsutengd málefni í mörg ár. Vefirnir www.6h.is og www.heilsuhegdun.is voru til að mynda forverar Heilsuveru sem buðu alls kyns fræðslu um sjúkdóma og heilsu, þannig að við byggðum á góðum grunni. Mínar síður Embættis landlæknis eru um 10 ára gamlar.

Heilsuvera.is er samstarfsverkefni Embættis landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítalans. Embættið annast „Mínar síður“ vefsins, þar sem fólk getur nálgast lyfseðla, skoðað sjúkraskrár, pantað tíma hjá sínum lækni og fleira. 

Ytri vefurinn - þekkingarvefurinn - er í umsjá okkar hjá heilsugæslunni, þar sem við leggjum áherslu á að miðla upplýsingum til almennings um hvaðeina sem tengist sjúkdómum, forvörnum og heilbrigðara lífi, en við viljum líka aðstoða fólk með hvert það á að snúa sér í kerfinu, sem er ekki alltaf einfalt.“

Þjónustuvefsjá

Þjónustuvefsjáin er þægilegt tól til að finna fljótt heilsugæslustöðvar um allt land. Viðmótið gefur einnig helstu upplýsingar um þjónustu á hverri stöð. Nýlega var hjúkrunarheimilum einnig bætt við kortið.

Rafræn auðkenning mikilvægt skref

Hverjar voru helstu áskoranir sem mættu ykkur þegar vinnan hófst? Hvar lágu tækifærin?

„Stóra sprengjan hjá okkur varð í Covid faraldrinum, heilsugæslustöðvar lokuðu, aðgengi var skert að heilbrigðisstofnunum á meðan fólki vantaði upplýsingar og þjónustu. 

Þá margfaldaðist umferð á Heilsuveru, enda var þar hægt að nálgast áreiðanlegar upplýsingar um sjúkdóminn, bólusetningar, bestu ráð um forvarnir og fleira. Einnig var hægt að nálgast bólusetningarskírteini fyrir ferðalanga. Við nýttum líka vefspjallið til að létta álagi af heilsugæslunum.“

Heilbrigðisþjónusta snýr í eðli sínu að viðkvæmum persónuupplýsingum. Það er því ekki sama hvernig rafræn heilbrigðisþjónusta er útfærð, þannig að upplýsingaöryggi sé tryggt:

„Auðkenning notenda var viss áskorun en líka tækifæri. Til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar verðum við að vera viss um að verið sé að tala við réttan aðila. Í dag getum við boðið upp á auðkenningu í gegnum vefspjallið og því miðlað og tekið við heilsufarsupplýsingum, sem er mikil breyting.”

Mikilvægt er að huga að notendahópum sem eiga erfitt með að nýta þessa þjónustu, eins og aldraða, og Embætti landlæknis er að vinna að því að þróa útfærslur fyrir þá hópa. Símaþjónusta 1700 er liður í þessu. “

Helstu nýjungar á undanförnum misserum

Heilsuvera hefur tekið miklum breytingum síðustu misseri í takt við væntingar notenda og í hugmyndavinnu samstarfsaðila. Stærstu breytingarnar snúa að nýstárlegri efnisframsetningu en einnig hefur rafræn þjónusta í gegnum netspjall stóreflst.

 1. Netspjall tekur stökk

  Þjónusta í gegnum netspjall opnaði fyrst 2017, og með rafrænni auðkenningu 2022 var hægt að miðla viðkvæmum heilsufarsupplýsingum til notenda sem var mikil framför. Um 200 manns hafa samband á dag og um 100 að taka innritunarviðtal í netspjallinu. Það léttir mikið á bókun á vaktina því þá hefur læknir bakupplýsingar, söguna, lýsingu á erindi, sem styttir viðtal og skoðun.

 2. Gervigreind í netspjallið

  Notandinn er leiddur áfram þar sem hann velur einkenni sín og svörin skráð í samskiptasögu, sem birtist lækni ef viðkomandi kemur í heilsugæsluna. Lausnin leggur svo til greinar og efni sem passar við erindi viðkomandi og hægt er að senda þeim.

 3. Heilsuprófið

  Sérstakt heilsupróf er aðgengilegt á vefnum þar sem notendur geta farið í gegnum spurningalista og fengið mat á þáttum sem hafa áhrif á heilsu og persónumiðaðar ábendingar um efni til leiðsagnar um betri lífstíl.

 4. Hollara val

  Sérstök undirsíða, „Hollara val“, um hollustu matvæla er ætlað að auðvelda almenningi að bera saman vörur og velja hollari kostinn. Á síðunni má fá upplýsingar um viðbættan sykur og koffínmagn í ýmsum vörum og bera sama ólíkar vörur.

 5. Betra aðgengi fyrir ferðamenn og nýja Íslendinga

  Aðgengi að upplýsingum fyrir fólk af erlendum uppruna, bæði íbúa og ferðamenn, hefur verið stórbætt. Helstu upplýsingar, lykilefnissíður og þjónustuvefsjáin er nú aðgengileg bæði á ensku og pólsku.

 6. Gátt fyrir fagfólk

  Mikilvægt er að heilbrigðisráðgjöf í gegnum fjarlausnir byggi á traustum ferlum og staðlaðri aðferðafræði.  Á síðasta ári var vígð sérstök veflausn og gátt fyrir fagfólk sem veitir slíka þjónustu. Þetta nýta sér yfir 100 fagmenn um allt land.

Stefna og framtíðarsýn

Hefur Heilsugæslan einhverjar skilgreinda stefnu og markmið hvað varðar stafræna vegferð?

„Tilgangur okkar er vegvísirinn; að veita áreiðanlegar upplýsingar og fræðslu til almennings, bæði til að létta á kerfinu og til að auðvelda fólki að hjálpa sér sjálft. Stefnan er núna að þróa gervigreind inn í netspjall Heilsuveru og þannig aðstoða hjúkrunarfræðinga við að veita ráðgjöf og vinna að því að ferlið taki styttri tíma.

Áframhaldandi þróun vefsins og efnis hans verður í dýnamísku samstarfi fagfólks, sérfræðinga hjá Vettvangi og annarra hagsmunaaðila. Við höfum líka nýtt okkur svokallað lausnamót Heilsutækniklasans - þannig kom AI lausnin fyrir spjallið til okkar.“

Umbraco nýtist vel

Tæknin spilar stórt hlutverk í hvers kyns stafrænni umbreytingu. Eru einhver tiltekin tól sem hafa leikið lykilhlutverk við að ná markmiðum ykkar?

Umbraco vefumsjónarkerfið virkar vel fyrir okkur. Það er auðvelt fyrir okkur að vinna í því og uppfæra allt efni sjálf. Það er annars mikilvægt að bíða ekki lengi með kerfisuppfærslur, við höfum rekið okkur á það. Ef beðið er of lengi geturðu setið uppi með úrelt kerfi sem þýðir að þú getur ekki lengur uppfært vefinn.“

Einfalt aðgengi að ríkulegu efni

Heilsuvera er hlaðin fróðleik um heilsu og forvarnir. Mikil vinna hefur verið lögð í að auðvelda sem mest aðgengi að efninu með hugvitsamlegri flokkun og öflugri leitarvél

Viðhorf starfsmanna mikilvægt í umbreytingunni

Hvernig hefur stafvæðing þjónustunnar haft áhrif á vinnulag og viðhorf starfsmanna? 

„Okkar verkefni er auðvitað að létta líf fólks, bæði notenda og starfsmanna. Spara tíma, bæta upplýsingaflæði og svo framvegis. Það er erfitt að venja sig á nýtt vinnulag og sumir vilja halda í gamlar venjur.

En við sjáum að í tilfelli starfsmanna er mjög mikilvægt að þeir fái vandaða þjálfun og stuðning í notkun tólanna, jafnvel endurtekið. Við fáum líka mikilvæga endurgjöf frá þeim sem við nýtum að bæta lausnirnar.

Þeir sem nýta sér markvisst lausnirnar eru mjög ánægðir með þessar tækninýjungar.“

Árangursmælikvarðar

Hvaða mælikvarða notið þið til að meta árangur verkefna?

“Helsta tæki okkar til að mæla virkni á vefnum er Siteimprove. Við notum það til að fylgjast með hlekkjum sem virka ekki, hvort efnið sé læsilegt og aðgengilegt. Einnig sjáum við vel hvaða efni er vinsælast hverju sinni. 

Svo höldum við vel utan allar tölur um notkun, meðal annars fjölda notenda í vefspjallinu. Einn nýlegur mælikvarði er einkunn sem notendur geta gefið okkur í lok vefspjalls. Það er mikilvægt að mæla árangur af því sem við erum að þróa til að við getum haldið áfram að bæta okkur.”

Hollara val

Hönnuð var sérstök undirsíða, „Hollara val“ sem auðveldar almenningi að velja hollari kostinn hverju sinni. Þar má finna upplýsingar viðbættan sykur og koffínmagn í ýmsum vörum og bera þær saman.

Ótti við tæknibreytingar óþarfur

Hvaða ráð viltu gefa fyrirtækjum sem eru að hefja sína stafrænu vegferð? Eru einhverjar lexíur sem þið viljið deila með öðrum?

„Sumir heilbrigðisstarfsmenn eru hikandi við að nýta tæknina. Líklega á það við um ýmsa aðra sem vinna með viðkvæm gögn og þjónustu. Ég vil bara hvetja fólk til að vera opið fyrir tækninýjungum, ekki stíga strax á bremsuna.

Ef tæknin er notuð á öruggan hátt, eins og við erum að gera, mun hún létta undir í störfum okkar og gera þau skemmtilegri.“

Hvernig sérðu stafræna þjónustu þróast í næstu framtíð?

„Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá heilbrigðisyfirvöldum við þeim nýjungum sem við höfum innleitt og mikill áhugi því að þróa þjónustuna áfram.

Við fengum til dæmis ósk um að hjúkrunarheimilin yrðu sýnileg á vefsjánni okkar, sem í dag sýnir allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og þjónustu sem þær veita. Þetta er nú þegar komið í gagnið, og nú erum við að bæta við öllum dvalarheimilum líka.

Það að yfirvöld sýni þennan áhuga segir okkur að við séum á réttri leið. Við erum allavega hvergi nærri hætt - við erum rétt að byrja.“

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

 • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
 • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
 • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
 • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
 • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur