Fara á efnissvæði
Vettvangur
Vettvangur

Innnes er leiðandi aðili á matvörumarkaði og hefur verið leiðandi á sínum markaði í áratugi. Stefna Innnes er að bjóða allt á einum stað fyrir heildsala, smásölukeðjur, veitingahús, mötuneyti og stóreldhús. 

Lykilþáttur í góðum árangri Innnes undanfarin ár er markviss fjárfesting í tækniþróun og lausnum til sjálfsafgreiðslu viðskiptavina í gegnum hátæknivætt vöruhús og vandaðar veflausnir.

Vefverslun Innnes hefur til dæmis vaxið gríðarlega síðan hún var opnuð fyrst 2018. 

Tinna Harðardóttir er upplýsingatæknistjóri Innnes og hefur borið hitann og þungann af stafrænni umbreytingu fyrirtækisins undanfarin ár. Hún segir okkur hér frá helstu verkefnum, vörum og árangri.

Frá símsvörun í leiðtoga upplýsingatæknisviðs

Hvert er hlutverk þitt hvað varðar stafræna þjónustu og stafrænar lausnir hjá Innnes?

„Ég byrjaði hjá Innnes 2001 sem sumarstarfsmaður við móttöku og símsvörun, en vann mig upp og tók við starfi verkefnastjóra viðskiptakerfa 2009. Síðar fór ég svo yfir á upplýsingatæknisvið og hef leitt það frá 2014. Þar starfa með mér níu manns. Mitt hlutverk er að marka stefnuna, leiða verkefni og stýra teymum.“

Tinna leiðir þróunina en hún er ekki ein á báti. Sérstakur stýrihópur tækni- og markaðsfólks um veflausnir hittist aðra hverja vika þar sem stóru skrefin eru ákveðin. „Það er lykilatriði að þessi ólíku hópar vinni saman.

Við ræðum þar um markaðssetningu, ásýnd Innnes á stafrænum miðlum, hvort hún sé samræmd milli miðla og fleira. Við viljum að ásýnd okkar sé sterk á öllum stafrænum miðlum og að það sé heildarbragur á þeirri ásýnd.“

Hátæknivöruhús og vefverslun

Hvenær og hvernig hófst ykkar stafræna vegferð fyrir alvöru?

„Við byrjuðum að skoða stafrænar lausnir gagnvart viðskiptavinum fyrir um 10 árum. Við vildum verða sýnlegri í stafrænum heimi, enda sáum við stór tækifæri þar því samkeppnisaðilar okkar voru alls ekki að gera merkilega hluti á þessum tíma.

Við gerðum tilraun til að setja upp vefverslun en fundum fljótt að við vorum ekki tilbúin, innviðirnir voru ekki klárir. Þegar við tókum svo upp þráðinn með Vettvangi 2017 vorum við búin að vinna heimavinnuna og hreinsa upp töluverða tækniskuld.“

Fyrsta skóflustungan að sjálfvirku hátæknivöruhúsi Innnes var tekin um svipað leyti og var húsið opnað 2020. Vöruhúsið styðst við aðra stafræna þjónustu í gegnum veflausnir Innnes.

Innnes leggur áherslu á tæknilega ferla og sjálfvirkni. Pantanir berast allan sólarhringinn sem hægt er að setja strax í vinnslu þannig að þær verði klárar til útsendingar strax um morguninn, þótt enginn starfsmaður sé mættur í vinnu.

„Með því að auka sjálfvirkni og straumlínulaga ferla hefur okkur tekist að margfalda gegnumstreymi. Gríðarlegur munur er á afköstum nú miðað við þegar við vorum að byrja. Ágúst síðastliðinn var stærsti ágústmánuður frá upphafi.“ segir Tinna.


LSR 1

Framsýni og áhugi stjórnenda mikilvægur

„Ólafur, eigandi Innnes, hefur alltaf verið mjög framsýnn. Okkur finnst eins og hann horfi töluvert lengra en við inn í framtíðina. Hann setti kúrsinn á tæknivædda vöruhúsið okkar. Það urðu ákveðin straumhvörf, þegar gamla heildverslunin Innnes varð að hátæknivöruhúsi“, segir Tinna.

Æðstu yfirmenn og stjórn Innnes er mjög áhugasöm um tækniþróun enda tæknin lykilatriði hvað varðar samkeppnihæfni í dag.

„Við höldum stóra stefnumótunarfundi reglulega til að greina stöðuna og setja kúrs fyrir nokkur ár í senn. Sumar stafrænar áherslur okkar hafa komið út úr slíkri stefnumótun, og stundum fæ ég leiðbeinandi óskir frá framkvæmdastjórn en annars tek ég oft frumkvæði sjálf og set ný verkefni í gang“, segir Tinna.

Hvernig hefur stafræn þjónusta á ykkar markaði breyst undanfarin ár?

„Þegar við fórum af stað fyrir nokkrum árum var ekki mikið að gerast á okkar markaði hvað varðar stafræna þjónustu. En í dag eru allir á sömu vegferð og margir komnir með svipaðar lausnir - þótt ég vilji meina að við séum enn fremst meðal öflugra jafningja.

En þetta er hörð barátta. Við þurfum stöðugt að vinna í því að gera enn betur. Við viljum ekki að viðskiptavinir okkar finni nokkra ástæðu til að snúa sér annað en til okkar með innkaup sín.“

Nýtt app bætir þjónustu enn frekar

„Lausnir okkar eru í stöðugri þróun. Nú erum við að gefa út nýtt app, sem við erum mjög spennt að kynna fyrir okkar viðskiptavinum. Við höfum séð að margir panta í vefversluninni í gegnum síma og því var freistandi að skoða hvort við gætum tekið þjónustu okkar skrefið lengra með eiginlegu appi.“

Appið gefur Innnes ýmsa möguleika sem vefurinn getur ekki, til dæmis að senda tilkynningar, bjóða rakningar á sendingum og fleira. Notendaupplifun í gegnum app er líka allt önnur, meðal annars meiri hraði og afköst. 


Innnes 2 New

Nýja Innnes appið er bylting fyrir fagfólk í matvælageiranum

„Þetta snýr allt að því að veita viðskiptavinum okkar betri þjónustu, að þeir geti afgreitt sig sjálfir hvar og hvenær sem er, á auðveldan og einfaldan hátt.

Á sama tíma höfum við verið mjög skýr á því að víkka ekki út kjarnastarfsemi okkar. Við erum ekkert að fara að selja snyrtivörur eða bjóða leigubílaþjónustu“, útskýrir Tinna.

Helstu vörður síðustu ára

Síðan Vettvangur og Innnes hófu samstarf hefur stöðugt verið unnið að uppfærslum og frekari þróun lausna. 

Hér eru helstu áfangar síðustu ára

  • 2018 – Ný vefverslun Innnes fer í loftið í samstarfi við Vettvang.
  • 2020 – Hátæknivöruhús í Korngörðum tekið í notkun. Innnes innleiðir sjálfvirkt vöruhúsakerfi sem er eitt sinnar tegundar á Íslandi.
  • 2021 – Tollvörugeymsla í Korngörðum tekin í notkun.  Sjálfvirkar tollúttektir og sala á tollfrjálsri vöru beint úr vöruhúsi Innnes.
  • 2022 - Ytri vefur og verslun voru sameinuð í eina samstæða lausn. Uppfærð notendastýring, mínar síður, sölumannaviðmót, tækniuppfærsla og ýmsar betrumbætur á skipulagi.
  • 2023 – Sala á víni í gegnum vefverslun hefst (gerist fljótlega eftir samruna Innnes og Vínnes í árslok 2022).
  • 2024 – Vöruframboð í vefverslun útvíkkað enn frekar með sölu á sérpöntunarvörum og átakinu „Minnkum matarsóun“.
  • 2025 – Bakendakerfi vefverslunar fær verulega yfirhalningu.  Vefverslunarapp Innnes fer í loftið og byggir á sömu þjónustum og endapunktum og vefurinn.

LSR 1 1

Öryggi er áskorun í stafrænum rekstri

Hverjar eru helstu áskoranir sem þið hafið mætt í ykkar verkefnum?

„Stórar kerfisbreytingar eru þungar og erfitt að vera „agile“ í síbreytilegum heimi þegar innri ferlar eru fastir fyrir. Okkur hefur þó tekist ótrúlega vel að ná okkar markmiðum í þessum snúna heimi“, segir Tinna.

Rekstur og þjónusta í gefnum veflausnir bjóða ákveðinni hættu heim hvað varðar netógnir. „Það er áskorun að vinna í stafrænum heimi en hafa samt öryggið í lagi, sem er mjög mikilvægt í okkar rekstri, en Vettvangur hefur brugðist hratt og örugglega við því sem upp hefur komið.”

Vefverslun keyrir upp veltu

Sem fyrr segir hefur Innnes náð miklum ávinningi af stafrænni umbreytingu sinni. Hlutfall netverslunar í heildarveltu fyrirtækjasviðs hefur til dæmis rokið upp á örfáum árum. 


222 (1)

En þar er ekki öll sagan sögð.

„Það er mjög skemmtilegt að skoða þessi gröf. Tölurnar sýna mjög vel hversu mikinn þátt vefverslunin á í vextinum umfram aðrar breytur.  Fyrir tíma vefverslunarinnar var fyrirtækjasviðið ekki með nema 23% af heildartekjunum en á í dag 40%.  

Að sama skapi er hlutdeild vefverslunar í tekjum fyrirstækjasviðs orðin 65% það sem af er ári [október 2025].  Af þessu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að vefverslunin spili lykilhlutverk í vaxtamöguleikum okkar á þessum harða markaði sem matvörugeirinn er.“


111 (1)

Azure mikil framför en almenn skýjavæðing ekki á dagskrá

Veflausnir Innnes og þróunarumhverfi þeirra hefur verið sett upp í Azure skýjaumhverfi, sem hefur marga kosti, meðal annars hnökralausar uppfærslur og styttri tíma á markað.

Innnes er þó ekki almennt á skipulagðri skýjavegferð. Það eru breyttir tímar. Aukin hætta á rofi sæstrengja vegna átaka í Evrópu hefur heldur minnkað áhuga á að færa stærri hluta innviða í alþjóðlegt skýjaumhverfi.

„Innnes er skilgreint sem mikilvægt fyrirtæki fyrir almannaöryggi og nauðsynlegt að það geti haldið opinni starfsemi og dreift matvælum þótt upp komi alvarlegt rof á tengingum við landið“, bendir Tinna á.

Ýmsar nýjungar í þróun

Hvaða tækninýjungum eða tæknimöguleikum ert þú mest spennt fyrir?

Miklar framfarir eru að eiga sér stað með alls kyns gagnalausnum og líkönum sem nýta gervigreind. Innnes hefur fullan hug á því að taka þátt í þeirri byltingu.

„Við erum að skoða núna möguleika gervigreindarinnar, hvaða leiðir myndu nýtast okkur best til að auðvelda viðskiptavinum enn frekar að vera sjálfbjarga í viðskiptum við okkur.

En slíkar lausnir verða að skila raunverulegum ávinningi, betri þjónustu. Við viljum vinna góða grunnvinnu fyrst - við viljum ekki setja vinnu og fjármagn í tilraunamennsku sem jafnvel bitnar á þjónustuupplifun.“

Hvaða tækifæri í stafrænni þjónustu Innnes sérðu fram undan í næstu framtíð?

„Við viljum halda áfram að þróa áfram Mínar síður, viljum að viðskiptavinir séu alveg sjálfbjarga með sín mál. Við sjáum til dæmis fyrir okkur að þeir hafi valmöguleika um greiðslur og geti stjórnað sínum viðskiptaheimildum svipað og með yfirdráttinn í bankanum. Við finnum þörf fyrir þessa viðbót.

Við erum líka að skoða nýjan þjónustukanal í netspjalli með AI stuðningi, sem myndi nýta viðskiptagögn viðkomandi notanda.

Það er margt spennandi í pípunum hjá okkur.“, klikkir Tinna út með að lokum.

Samantekt

Saga Innnes er frábært dæmi um hvaða árangri er hægt að ná þegar stafræn þróun er keyrð áfram af framsýni og metnaði.

Tinna og hennar teymi hafa umbreytt þjónustu Innnes með markvissri og stöðugri nýsköpun, og sett ný viðmið á sínum markaði. Það er ljóst að þetta er þetta aðeins fyrsta kaflinn í sögu Innnes.